Innskráning í Karellen
news

Áræðnilota

16. 04. 2024

Lota 6: Áræðni

  • Áræðnilotan er þriðja stig einstaklingsþjálfunar og fer fram í mars-apríl.
  • Lykilhugtök eru: kjarkur, kraftur, virkni, frumkvæði.
  • Uppskeruvikan er frumkvöðlavika.

Þessari síðustu lotu kynjanámskrárinnar er ætlað að reka smiðshöggið á heildarstarf vetrarins hvað varðar persónuþroska, bæði í einstaklings- og félagslegu tilliti og skilning barnanna á fjölþættum eiginleikum og mannlegri hæfni. Hér reynir á áræðni, kjark og framkvæmdagleði en kjarkæfingarnar geta verið af ýmsum toga. Þar má nefna skólaferðina sem reynir svo sannarlega á kjarkinn, líkamlega áreynslu og íþróttir svo og að koma fram fyrir stórum hópi í tjáningu, dansi eða tónlist. Hér er fengist við leiðtogahæfileika og hæfni til að þora að standa fyrir máli sínu, til dæmis með rökræðum og heimspekilegri úrvinnslu. Frumkvæði er styrkt og fjallað vitsmunalega og verklega um möguleika nemenda til að hafa áhrif á umhverfi sitt með nýjum hugmyndum, nýjum lausnum, lýðræðislegum reglubreytingum og formlegum tillögugerðum til stofnana og aðila sem hafa áhrif á líf okkar. Því ekki að heimsækja skólanefnd sveitarfélagsins með handskrifað erindi um eitthvað sem skólann varðar eða heimsókn í fyrirtæki til að sækja efnivið í verkefni kjarnans? Þannig styrkist gerendahlutverkið og sjálfstrúin á að við séum okkar eigin gæfu smiðir.

© 2016 - Karellen